Enski boltinn

Mourinho: United verður meistari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Inter.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Inter. Nordic Photos / AFP

Jose Mourinho á von á því að Manchester United verði Englandsmeistari í vor en telur þó sína menn skipa besta lið Evrópu um þessar mundir.

Mourinho er nú knattspyrnustjóri Inter en var áður hjá Chelsea sem er, rétt eins og Liverpool, fjórum stigum á eftir United sem á þó tvo leiki til góða. Chelsea er á ágætri siglingu og hefur unnið alla leiki sína síðan að Guus Hiddink tók við liðinu.

„Guus hefur byrjað vel hjá Chelsea og ég held að hann muni stýra Chelsea til sigurs í mörgum leikjum," sagði Mourinho. „Auðvitað getur Chelsea unnið deildina en mér finnst að United sé einfaldlega með of mikið forskot. Maður veit svo sem aldrei í fótbolta en ég held að United verði meistari."

United og Inter mætast í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í næstu viku en fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli á San Siro.

„Ég held að það sé Inter," sagði Mourinho spurður um hvað væri besta lið Evrópu um þessar mundir. „En Barcelona og Manchester United eru með mjög sterka stöðu í sínum deildum líka. Evrópukeppnin mun skera úr um hvaða lið sé best."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×