Enski boltinn

Mark Hughes skorar á John Terry að koma til Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry á enn eftir að koma fram og tala opinberlega um tilboð Manchester City.
John Terry á enn eftir að koma fram og tala opinberlega um tilboð Manchester City. Mynd/AFP

Mark Hughes, stjóri Manchester City, hefur nú skorað á John Terry, fyrirliða Chelsea, að koma til Manchester-liðsins til að koma ferli sínum aftur á skrið.

Terry hefur neitað að tjá sig opinberlega um framtíð sína en Hughes er sannfærður um að enski landsliðsmiðvörðurinn sé spenntur fyrir nýrri áskorun á sínum ferli.

„Það er mín reynsla að þegar leikmaður er búinn að vera lengi hjá sama félagi þá kemur að því að hann þarf að komast í nýtt umhverfi til að endurnýja sig," segir Mark Hughes.

„Þetta er ekki spurning um peninga. Þetta snýst um að finna nýja áskorun og að komast á næsta stig á hans ferli. Hann hefur kannski ekki tjáð sig um þetta mál af því að hann er alvarlega að hugsa um sína framtíð," sagði Hughes.

„Við erum búnir að senda Chelsea tilboð og ég hef opinberað skoðun mína á John Terry. Hann er stórkostlegur leikmaður og frábær karakter. Við myndum vilja tala við hann en það hefur ekki orðið að veruleika enn sem komið er," sagði Hughes.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×