Enski boltinn

Wenger langar að fresta hátíðarhöldum á Old Trafford

AFP

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að helsti munurinn á gengi sinna manna og Manchester United sé varnarleikurinn. Hann segir Arsenal alveg jafn gott sóknarlið og United.

Wenger og hans menn verða að vinna á Old Trafford á laugardaginn ef þeir kæra sig ekki um að horfa upp á United fagna titlinum í leikslok.

"Við erum með ungt lið sem lofar mjög góðu. Ef tölfræði þessara liða er skoðuð má sjá að við erum með svipað góða sókn og þeir. United er hinsvegar með mun betri árangur en við í varnarleiknum," sagði Wenger.

"Það er útlit fyrir að United muni landa titlinum á þessari leiktíð en við getum enn slegið því á frest og við eigum vissulega harma að hefna," sagði Wenger og vísaði í undanúrslitarimmu liðanna í meistaradeildinni á dögunum. Arsenal hefur að litlu að keppa, enda hefur liðið þegar tryggt sér fjórða sætið í deildinni.

"Við spilum fyrir stoltið og viljum njóta virðingar. Við lofuðum okkur í janúar að gefa allt sem við ættum í restina af leiktíðinni. Sá 18 stiga munur sem er á okkur og United er hinsvegar eitthvað sem við verðum að sætta okkur við. Við verðum að koma til baka á næstu leiktíð og slá þeim við," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×