Enski boltinn

Arsenal í fjórðungsúrslitin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhannes Karl í baráttu við William Gallas í leiknum í dag.
Jóhannes Karl í baráttu við William Gallas í leiknum í dag. Nordic Photos / Getty Images
Arsenal vann sér í dag sæti í fjórðungsúrslitum ensku bikarkeppninnar eftir 3-0 sigur á Burnley á heimavelli í dag.

Þar með er 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar loksins lokið en þegar er tveimur leikjum lokið í fjórðungsúrslitunum.

Everton tekur svo á móti Middlesbrough síðar í dag en fjórðungsúrslitunum lýkur ekki fyrr en að Arsenal er búið að spila við Hull.

Jóhannes Karl Guðjónsson var í byrjunarliði Burnley í dag en var tekinn af velli á 59. mínútu.

Carlos Vela skoraði fyrsta mark leiksins á 25. mínútu eftir sendingu frá Andrei Arshavin. Jóhannes Karl reyndi að stöðva Vela en án árangurs. Hann skoraði með laglegu skoti yfir Brian Jensen í marki Burnley.

Þannig var staðan í hálfleik en Króatinn Eduardo skoraði annað mark leiksins strax á 51. mínútu. Hann fékk þá sendingu frá Alexandre Song inn í teig Burnley þar sem hann gerði sér lítið fyrir og stýrði knettinum viðstöðulaust í netið með hælnum. Ótrúlegt mark.

Emmanuel Eboue skoraði svo þriðja markið með laglegu skoti eftir afar snyrtilega hælsendingu Alexandre Song.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×