Innlent

Fangar á Litla-Hrauni kjósa til Alþingis í dag

Breki Logason skrifar

Töluverður áhugi er meðal fanga á komandi kosningum en þeir munu kjósa utan kjörfundar í dag. Fulltrúi sýslumanns á Selfossi kemur í fangelsið og þeir sem vilja geta tekið þátt. Um 90 fangar eru á Litla-Hrauni nú en af þeim eru einhverjir útlendingar sem ekki hafa kosningarétt. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur rætt við kjósendur á Litla Hrauni í aðdraganda kosninganna.

Margrét Frímannsdóttir fangelsismálastjóri segir að fulltrúi frá kosningaeftirliti ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu) hafa óskað eftir því að vera viðstaddur kosninguna sem fer fram í dag. Hún segir að töluverður áhugi sé meðal fanga og í sama streng tekur Jón Sigurðsson deildarstjóri á Litla-Hrauni.

„Miðað við áhugann sem við höfum fundið fyrir hér, þá munu langflestir taka þátt í kosningunum," segir Jón en fangar hafa ekki alltaf mátt kjósa utankjörfundar. Áður fyrr þurfti að keyra þá á Selfossi en fyrir skömmu var bætt við einu orði í kosningalögin sem heimilaði föngum að kjósa utan kjörfundar.

Fulltrúi sýslumanns mætir með atkvæðaseðla í fangelsið í dag en það er síðan undir föngunum sjálfum komið að skila þeim í rétt kjördæmi en í einu herbergi hefur verið útbúinn nokkurskonar kjörklefi.

„Menn vilja nýta kosningaréttinn og taka þannig þátt í samfélaginu," segir Jón.

Aðspurður hvort flokkarnir hafi verið duglegir að mæta í fangelsið og ræða við kjósendur segir Jón svo ekki vera. „Það voru reyndar einhverjir framsóknarmenn að labba hérna um í gær."

Margrét Frímannsdóttir fangelsismálastjóri sat áður á þingi fyrir Samfylkinguna en Jón segir hana ekki hafa verið á atkvæðaveiðum innan fangelsins. „Margrét er það stórkostleg að hún veit alveg hvað hún á að syngja og hvað ekki," segir Jón og hlær.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×