Enski boltinn

Ekkert verður frekar aðhafst í Carlosar Tevez-málinu

Ómar Þorgeirsson skrifar
Carlos Tevez fagnar marki með West Ham.
Carlos Tevez fagnar marki með West Ham. Nordic photos/AFP

Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar og stjórn enska knattspyrnusambandsins gáfu út sameiginlega yfirlýsingu í dag vegna Carlosar Tevez-málsins svokallaða, sem hefur verið í gangi undanfarin tvö ár á milli West Ham United og Sheffield United.

Nefnd skipuð af ensku úrvalsdeildinni og enska knattspyrnusambandinu hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að West Ham hafi þegar gert upp sakir sínar hvað varðar kærumálið á hendur félaginu.

„Niðurstaðan er sú að nefndin telur að forráðamenn West Ham hafi ekki brotið neinar aðrar reglur en þær sem þeir hafa þegar tekið út refsingu fyrir og því verður ekkert frekar aðhafst í málinu," segir í áðurnefndri yfirlýsingu.

Í stuttu máli lögðu forráðamenn Sheffield United fram kæru á hendur West Ham eftir að fyrrnefnda félagið féll úr ensku úrvalsdeildinni í lok keppnistímabilsins 2006-2007 og vildu meina að Lundúnafélagið hafi brotið reglur með því að nota Argentínumanninn Carlos Tevez.

Málið er búið að fara fram og aftur í dómskerfinu síðan þá og flestir dómsstólar dæmt Sheffield United í vil og West Ham meðal annars gert að greiða háar skaðabætur en aldrei talað um að draga stig af West Ham eins og Sheffield United fór upphaflega fram á.

Að öllu óbreyttu virðist því málið á enda runnið en ekki liggur ljóst fyrir að svo stöddu hversu háa upphæð West Ham þurfti að greiða Sheffield United þegar allt er tekið saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×