Enski boltinn

Ferguson sagður vilja fá Guardiola í sinn stað

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guardiola fagnar eftir sigurinn á United í Meistaradeildinni.
Guardiola fagnar eftir sigurinn á United í Meistaradeildinni.

Það er mikið rætt og ritað um framtíð Pep Guardiola, þjálfara Barcelona, þessa dagana. Þó svo hann hafi unnið alla sex bikarana sem voru í boði í ár er ekki enn frágengið að hann verði áfram með Barcelona eftir tímabilið. Samningur hans rennur út næsta sumar.

Fyrst birtist frétt um að Arsene Wenger, stjóri Arsenal, sæi Guardiola sem arftaka sinn og nú hefur birst önnur frétt þar sem því er haldið fram að Sir Alex Ferguson vilji fá Guardiola til að stýra United er hann stígur niður.

Hermt er að Guardiola sé spenntur fyrir því að vinna á Englandi þar sem honum líkar hversu mikið frjálsræði stjórar á Englandi hafa í leikmannamálum. Stjórar á Englandi fá frekar að ráða því hverjir koma og fara en á Spáni.

Daily Mail segir að svo gæti farið að Guardiola yfirgefi Barcelona strax í apríl til þess að setjast við hlið Fergusons. Hann hafi því allt á tæru þegar loks kemur að því að Ferguson stígi til hliðar.

Þó svo Guardiola hafi ekki framlengt við Barca þá vill forsetinn, Joan Laporta, ólmur gera nýjan tveggja ára samning við hann. Það á aftur á móti eftir að kjósa nýjan forseta hjá félaginu og óvíst hvort Laporta verði áfram forseti Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×