Enski boltinn

Aron lagði upp mark hjá Coventry

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leik með Coventry.
Aron Einar Gunnarsson í leik með Coventry. Nordic Photos / Getty Images

Coventry tapaði í gær fyrir Sheffield United í ensku B-deildinni, 2-1 á heimavelli. Liðið er í þrettánda sæti deildarinnar en United í því fjórða.

Aron Einar Gunnarsson lék sem fyrr allan leikinn fyrir Coventry og fékk að líta gula spjaldið á 53. mínútu leiksins. Hann lagði upp eina mark Coventry með risainnkasti á 70. mínútu en Scott Dann skoraði markið með skalla.

Sheffield United komst í 2-0 í leiknum. Fyrst með marki á lokamínútu fyrri hálfleiks og svo snemma í þeim síðari.

Þetta var fyrsta tap Coventry í deildinni í rúman mánuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×