Fótbolti

FIFA íhugar að refsa Thierry Henry fyrir höndina frægu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry sést hér leggja upp markið fræga eftir að hafa tekið boltann með höndinni skömmu áður.
Thierry Henry sést hér leggja upp markið fræga eftir að hafa tekið boltann með höndinni skömmu áður. Mynd/AP

Thierry Henry er ekki sloppinn þrátt fyrir að hafa beðist formlega afsökunar á því að hafa notað höndina þegar hann lagði upp jöfnunarmarkið mikilvæga fyrir Frakka í umspilsleik við Íra um sæti á HM í Suður-Afríku næsta sumar.

FIFA mun taka málið hans fyrir á fundi á morgun og þar kemur til greina að refsa Barcelona-manninum fyrir "svindlið".

Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur talað við Theirru Henry og þegar Frakkinn spurði út í hugsanlega refsingu þá svaraði Blatter að málið yrði tekið fyrir hjá framkvæmdastjórninni.

FIFA mun þar fara yfir málið á öllum hliðum og líklegt þykir að niðurstaðan verði kynnt um leið og þær aðgerðir sambandsins til þess að koma í veg fyrir svona áberandi mistök í framtíðinni.

Meðal þess sem kemur til greina er að setja fimm dómara á leikina á HM næsta sumar þar sem tveimur marklínudómurum yrði bætt við eins og viðgengst í Evrópudeildinni í vetur.

Sepp Blatter hefur hinsvegar gefið það hreint og ákveðið út að myndbandstæknin verði ekki tekin upp í kringum dómgæslu í fótboltaleikjum og að FIFA muni áfram leggja áherslu á mannlega þáttinn í kringum fótboltann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×