Erlent

Bandaríkjastjórn hikar í Afganistan

Bandarískir hermenn gengu fylktu liði í New York á miðvikudag, þegar minnst var loka fyrri heimsstyrjaldarinnar. nordicphotos/AFP
Bandarískir hermenn gengu fylktu liði í New York á miðvikudag, þegar minnst var loka fyrri heimsstyrjaldarinnar. nordicphotos/AFP
 Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort fjölgað verði í herliði Bandaríkjamanna í Afganistan.

Í sumar sagði bandaríski hershöfðinginn Stanley McChrystal, sem er yfirmaður fjölþjóðaliðs NATO og Bandaríkjanna í Afganistan, nauðsynlegt að fá fjörutíu þúsund bandaríska hermenn til landsins í viðbót við þá sem fyrir eru. Að öðrum kosti væri engin von til þess að sigur næðist í baráttu við talibana og aðra uppreisnarhópa.

Nú stígur hins vegar Karl Eiken­berry, sendiherra Bandaríkjanna í Kabúl, fram og segir mesta óráð að senda fleiri hermenn til Afganistans. Eikenberry er fyrrverandi herforingi og var um tíma yfirmaður fjölþjóðaliðs NATO og Bandaríkjanna í Kabúl. Hann hefur síðustu daga sent hvert bréfið á fætur öðru til stjórnvalda í Washington þar sem hann segir allt of mikla óvissu ríkja um stöðu og áform Hamids Karzais forseta til þess að verjandi sé að veita honum frekari stuðning. Karzai hafi engan veginn sýnt fram á getu sína til þess að ráðast gegn spillingu í stjórn sinni.

Eikenberry telur einnig að fjölgun bandarískra hermanna í Afganistan geri Afgana enn háðara Bandaríkjunum, sem væri í andstöðu við öll markmið um að hjálpa þjóðinni til sjálfstæðis.

Á miðvikudag átti Obama fund með hópi yfirmanna úr hernum, „stríðsráði“ sínu svonefndu, þar sem þeir kynntu fyrir honum fjórar tillögur að framhaldi aðgerðanna í Afganistan. Snerust þær allar um að fjölga hermönnum, en þó mismikið. Vonast hafði verið til að þetta yrði lokafundur Obamas með stríðsráðinu áður en hann tæki ákvörðun, en hann hafnaði öllum tillögunum.

Efasemdir Eikenberrys um Karzai eiga hljómgrunn meðal bandarískra ráðamanna. Í gær sagðist Hillary Clinton utanríkisráðherra hafa áhyggjur af „spillingu, skorti á gegnsæi, lélegu stjórnarfari og vanburða réttarríki“ í Afganistan.

Karzai tekur í næstu viku formlega við öðru kjörtímabili sínu sem forseti. Mótframbjóðandi hans, Abdullah Abdullah, dró framboð sitt til baka áður en önnur umferð kosninganna átti að fara fram, meðal annars vegna efasemda um réttmæti kosninganna.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×