Enski boltinn

Hiddink fer til Rússlands í sumar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hiddink ætlar ekki að svíkja rússneska knattspynusambandið.
Hiddink ætlar ekki að svíkja rússneska knattspynusambandið. Nordic Photos/Getty Images

Það er komin mikil pressa á Hollendinginn Guus Hiddink að vera áfram hjá Chelsea eftir frábært gengi liðsins síðan hann tók við stjórnartaumunum af Luiz Felipe Scolari.

Leikmenn liðsins hafa beðið Hiddink um að vera áfram en það virðist lítil áhrif hafa á hinn snjalla Hollending.

„Strákarnir gætu skipt um skoðun ef ég hendi þeim á bekkinn eða tek þá úr hópnum," sagði Hiddink á gamansömum nótum.

„Það er verulega gott andrúmsloft hérna hjá félaginu og menn krefjast mikils hvor af öðrum. Ef strákarnir eru kátir og úrslitin eru góð þá er allt gott. Ég hef verið mjög hamingjusamur með alla strákana. Það eru allir að leggja sitt líð á vogarskálarnar," sagði Hiddink sem er samningsbundinn rússneska knattspyrnusambandinu og er ekki hættur að þjálfa rússneska landsliðið.

„Ég hef þegar gert mönnum það ljóst, að minnsta kosti í tvígang, hvernig hlutirnir verða eftir 30. maí. Ég vona að ég þurfi ekki að gera það aftur," sagði Hiddink og vísaði til þess að þann dag ætlar hann aftur til Moskvu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×