Enski boltinn

City spurðist fyrir um Hiddink

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guus Hiddink, landslisþjálfari Rússa.
Guus Hiddink, landslisþjálfari Rússa. Nordic Photos / AFP

Umboðsmaður hollenska knattspyrnuþjálfarans Guus Hiddink segir við enska fjölmiðla í dag að Manchester City sé eitt þeirra liða sem hafi sett sig í samband við hann vegna Hiddink.

Talið er að Mark Hughes sé valtur í sessi hjá City eftir að liðið tapaði fyrir Tottenham í vikunni, 3-0.

Þeir Roberto Mancini og Jose Mourinho hafa báðir verið orðaðir við stjórastöðu City en umboðsmaður Hiddink játaði því þegar hann var spurður hvort Garry Cook, framkvæmdarstjóri City, hafi rætt við sig um Hiddink sem er landsliðsþjálfari Rússlands.

„Ég þekki Garry vel enda unnum við lengi saman hjá Nike," sagði Cees Van Nieuwenhuizen. „En Guus er ánægður í Rússlandi."

„Ég hef líka fengið símtöl víða að vegna Guus. Juventus er eitt þeirra liða sem hafa rætt við okkur."

„Guus er samningsbundinn Rússum til næsta sumars en honum stendur til boða að vera áfram í tvö ár í viðbót. Ég held að hann verði pottþétt áfram þar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×