Enski boltinn

Manchester United kaupir 21 árs sóknarmann frá Molde

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjaer var einnig keyptur frá Molde.
Ole Gunnar Solskjaer var einnig keyptur frá Molde. Mynd/AFP

Manchester United er ekki hætt að kaupa leikmenn eins og stjórinn Alex Ferguson talaði um á dögunum því liðið keypti í dag 21 árs sóknarmann frá norska liðinu Molde, Mame Biram Diouf. Það hefur reynst United vel að sækja sóknarmenn til Molde en liðið keypti Ole Gunnar Solskjaer frá norska liðinu árið 1996.

Mame Biram Diouf kemur ekki strax til Manchester United því hann verður í láni hjá Molde fram í janúar. „Við erum búnir að vera að fylgjast vel með þessum strák í mörg ár," sagði Ferguson. Mame Biram Diouf hefur skorað 30 mörk í 62 leikjum með Molde þar af 13 mörk í 17 leikjum á þessu tímabili.

Sir Alex Ferguson sagðist vera hættur bæta við leikmönnum í hópinn eftir að hafa fengið Michael Owen, Antonio Valencia og Gabriel Obertan til liðsins en áhugi annara liða á Mame Biram Diouf varð til þess að UNited gekk frá kaupunum strax.

Mame Biram Diouf skoraði þrennu á fyrstu níu mínútunum í 5-2 sigri Molde á Brann í norsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og endaði leikinn með því að innsigla fernuna.

„Við ætluðum ekki að fá fleiri leikmenn þar sem við erum komnir með fullan leikmannahóp en málin þróuðust þannig að að önnur lið voru farin að bjóða í strákinn. Við urðum að ákveða hvort við vildum fá hann eða ekki og það var ákveðið að kaupa hann. Hann verður síðasti leikmaðurinn sem við fáum til okkar," sagði Ferguson.

„Þetta er gaman fyrir okkur í Molde, gaman fyrir Mame og ekki síst gaman fyrir fjölskyldu hans í Senegal. Male er góður í dag en hann getur orðið miklu betri," sagði Kjell Jonevret framkvæmdastjóri Molde.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×