Afar ólíklegt þykir að Steven Gerrard geti spilað með enska landsliðinu gegn Hvíta-Rússlandi í undankeppni HM 2010 á morgun.
Gerrard meiddist í leik Englands og Úkraínu um helgina og var skipt af velli í hálfleik. Hann gat svo ekki klárað æfingu með enska landsliðinu nú í morgun.
Þá gat David James ekki æft með liðinu í morgun og þar sem Robert Green verður í banni í leiknum á morgun er líklegt að Ben Foster verði í byrjunarliði Englands.
Wayne Rooney er einnig frá vegna meiðsla en England er þegar búið að tryggja sér sæti á HM í Suður-Afríku á næsta ári.