Innlent

Valgerður sigraði Hall í baráttunni um þriðja sætið

Valgerður Sveinsdóttir.
Valgerður Sveinsdóttir.
Valgerður Sveinsdóttir, lyfjafræðingur, sigraði Hall Magnússon í kosningu um þriðja sætið á lista framsóknarmanna í Reykjavík í kosningunum í maí á næsta ári. Valgerður sigraði með 66% gildra atkvæða en Hallur hlaut 34% atkvæða.

Einar Skúlason, varaþingmaður sigraði Óskar Bergsson, núverandi oddvita, þegar kosið var um fyrsta sætið fyrr í dag. Guðrún Valdimarsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK, bar sigurorð af Valgerði í kosningu um annað sætið.

Áður en kosning um þriðja sætið hófst dró Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, framboð sitt til baka. Hann er náinn félagi Óskars.

Fjórða sæti listans hlaut Zakaria Elias Anbari þjálfari, Ingvar Mar Jónsson flugstjóri það fimmta og Kristín Helga Magnúsdóttir sjötta sætið.




Tengdar fréttir

Guðlaugur dregur framboð sitt til baka

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitur Reykjavíkur, hefur dregið framboð sitt í 3. sæti á lista framsóknarmanna í borgarstjórnarkosningunum í vor til baka. Hann er náinn samstarfsfélagi Óskars Bergssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, sem laut í lægra haldi í baráttu við Einar Skúlason um oddvitasætið.

Einar sigraði sitjandi borgarfulltrúa

Einar Skúlason, varaþingmaður Framsóknarflokksins, sigraði Óskar Bergsson, borgarfulltrúa, í kosningu um oddvitasæti á lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Einar hlaut 62% atkvæða.

Óskar: Úrslitin vonbrigði

Óskar Bergsson, formaður borgarráðs og sitjandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir að úrslitin í kosningu um oddvitasæti flokksins séu vonbrigði. Hann ætlar að leggja sitt af mörkum í komandi kosningabaráttu.

Talning hafin á kjörfundi framsóknarmanna

Kosningu um oddvitasæti framsóknarmanna í komandi borgarstjórnarkosningum lauk á 12 tímanum og er talning hafin. Kjörfundur fer fram á Hótel Loftleiðum og berjast Einar Skúlason, varaþingmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri þingflokks framsóknarmanna, og Óskar Bergsson, borgarfulltrúi og formaður borgarráðs, um fyrsta sætið.

Einar og Óskar berjast um oddvitasætið

Kjörfundur framsóknarmanna vegna borgarstjórnarkosninganna í vor hefst klukkan tíu á Hótel Loftleiðum. Einar Skúlason, fyrrverandi skrifstofustjóri þingflokks framsóknarmanna, og Óskar Bergsson, borgarfulltrúi, takast á um oddvitasætið. Alls eru 20 frambjóðendur í kjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×