Innlent

Einar sigraði sitjandi borgarfulltrúa

Einar Skúlason, varaþingmaður Framsóknarflokksins, sigraði Óskar Bergsson, sitjandi borgarfulltrúa, í kosningu um oddvitasæti flokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Einar hlaut 62% atkvæða á kjörfundi framsóknarmanna sem hófst klukkan tíu í morgun á Hótel Loftleiðum.

Einar hlaut 298 atkvæði eða 62% gildra atkvæða og Óskar hlaut 182 atkvæði eða 38%. Auðir og ógildir seðlar voru 8. Í samtali við fréttastofu sagðist Einar vera gríðarlegar þakklátur fyrir þennan mikla stuðning. Hann ætlar að leggja sig allan fram í komandi kosningabaráttu og stefnir á góðan sigur.

Alls greiddu 488 atkvæði á kjörfundinum og segir Einar stemninguna á fundinum vera eins og á flokksþingi framsóknarmanna í janúar síðastliðnum þegar grasrót flokksins krafðist endurnýjunar.

Framsóknarflokkurinn fékk einn mann kjörinn í borgarstjórnarkosningunum 2006. Óskar tók sæti sem borgarfulltrúi þegar Björn Ingi Hrafnsson baðst lausnar í janúar 2008.

Á kjörfundinum verður kosið í sex efstu sæti listans með meirihlutakosningu og í sæti 7 til 12 með prófkjörsleið. Niðurstöður valsins eru bindandi. Atkvæðisrétt hafa félagsmenn í Framsóknarfélögunum í Reykjavík.

Ef tveir bjóða sig fram er kosið á milli þeirra þannig að sá sem fær fleiri atkvæði hlýtur sætið. Ef þrír eða fleiri bjóða sig fram er kosið milli allra frambjóðenda og ef enginn þeirra hlýtur meira en 50% gildra atkvæða er kosið aftur milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferð. Hlýtur sá sem fær fleiri atkvæði viðkomandi sæti. Þessi aðferð er viðhöfð í sæti 1 til 6. Ef frambjóðandi nær ekki því sæti sem hann sóttist eftir getur hann boðið sig fram í önnur sæti á kjörfundinum.

Kosning í 2. sæti listans hefst innan skamms. Í kjöri eru Guðrún Valdimarsdóttir, Salvör Gissurardóttir og Valgerður Sveinsdóttir.




Tengdar fréttir

Guðlaugur dregur framboð sitt til baka

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitur Reykjavíkur, hefur dregið framboð sitt í 3. sæti á lista framsóknarmanna í borgarstjórnarkosningunum í vor til baka. Hann er náinn samstarfsfélagi Óskars Bergssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, sem laut í lægra haldi í baráttu við Einar Skúlason um oddvitasætið.

Óskar: Úrslitin vonbrigði

Óskar Bergsson, formaður borgarráðs og sitjandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir að úrslitin í kosningu um oddvitasæti flokksins séu vonbrigði. Hann ætlar að leggja sitt af mörkum í komandi kosningabaráttu.

Talning hafin á kjörfundi framsóknarmanna

Kosningu um oddvitasæti framsóknarmanna í komandi borgarstjórnarkosningum lauk á 12 tímanum og er talning hafin. Kjörfundur fer fram á Hótel Loftleiðum og berjast Einar Skúlason, varaþingmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri þingflokks framsóknarmanna, og Óskar Bergsson, borgarfulltrúi og formaður borgarráðs, um fyrsta sætið.

Valgerður sigraði Hall í baráttunni um þriðja sætið

Valgerður Sveinsdóttir, lyfjafræðingur, sigraði Hall Magnússon í kosningu um þriðja sætið á lista framsóknarmanna í Reykjavík í kosningunum í maí á næsta ári. Valgerður sigraði með 66% gildra atkvæða en Hallur hlaut 34% atkvæða.

Einar og Óskar berjast um oddvitasætið

Kjörfundur framsóknarmanna vegna borgarstjórnarkosninganna í vor hefst klukkan tíu á Hótel Loftleiðum. Einar Skúlason, fyrrverandi skrifstofustjóri þingflokks framsóknarmanna, og Óskar Bergsson, borgarfulltrúi, takast á um oddvitasætið. Alls eru 20 frambjóðendur í kjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×