HB Grandi stendur þessa dagana fyrir námskeiðum fyrir starfsfólk sitt í fiskvinnsluverum fyrirtækisins í Reykjavík og á Akranesi. Á námskeiðunum er farið yfir meðhöndlun á hráefni, hreinlæti, umgengni og þrif og þess freistað að bæta gæði afurða og fyrirtækisbrag.
Námskeiðin, sem haldin eru í samstarfi við rannsóknarstofuna Sýni, hófust í síðasta mánuði og þeim lýkur fyrir áramót. Að sögn Bergs Einarssonar, verkstjóra gæðamála hjá HB Granda, verða námskeiðin alls fjórtán talsins. Þar af eru þrjú haldin á Akranesi. Í Reykjavík eru þátttakendur alls 135 og eru námskeiðin haldin á níu tungumálum: íslensku, ensku, taílensku, pólsku, litháísku, víetnömsku, kínversku, portúgölsku og tagalog. Þátttakendur í námskeiðunum á Akranesi eru fjörutíu talsins og þar verður kennt á íslensku og pólsku.
Farið er yfir ýmsa mikilvæga þætti á sviði fiskvinnslunnar eins og örverufræði, krossmengun og matarsjúkdóma. Þá eru starfsmenn markaðsdeildar HB Granda með kynningu á helstu mörkuðum og flutningsleiðum félagsins.- shá