Íslenski boltinn

Þorvaldur Árnason: Þetta var alveg hrikalega ódýrt víti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorvaldur Árnason skoraði sín fyrstu mörk í Pepsi-deildinni í sumar.
Þorvaldur Árnason skoraði sín fyrstu mörk í Pepsi-deildinni í sumar.

Stjörnumaðurinn Þorvaldur Árnason opnaði markareikninginn sinn í Pepsi-deild karla á Vodafone-vellinum í dag þegar hann skoraði tvívegis í 3-3 jafntefli við Val.

„Við áttum klárlega að vinna þennan leik. Við vorum svolítið kærulausir í fyrri hálfleik en við vorum frábærir í seinni hálfleik og sóttum látlaust. Við hefðum geta skorað haug af mörkum. Fyrir utan þessi tvö mörk þá klúðraði ég líka mjög góðum færum eins og fleiri í liðinu gerðu líka. Það eru því mikil vonbrigði að koma aðeins með eitt stig héðan," sagði Þorvaldur.

„Það er mjög gott að skora og maður fær meira sjálfstraust við það. Ég spilaði fyrstu leikina á tímabilinu og náði ekki að skora. Það voru aðrir að skora þá og við vorum að vinna leikina þannig að ég var ekki að stressa mig á því þá. Svo lenti maður í meiðslum og er búinn að missa af mörgum leikjum," sagði Þorvaldur Árnason sem skoraði sín fyrstu tvö mörk á tímabilinu.

Stjörnumenn voru mjög ósáttir með vítaspyrnudóminn sem færði Valsmönnum jöfnunarmarkið. Þeir voru líka í miklu minnihluta á vellinum sem áttuðu sig á hvað Gunnar Jarl Jónsson var að dæma.

„Eins og ég sá þetta, þá voru þetta bara tveir menn að berjast um boltann. Menn eru að toga í hvorn annan í teignum og það gerist í hvert einasta skiptið sem boltinn kemur inn í boxið. Mér fannst þetta alveg hrikalega ódýrt víti en það kemur kannski betur í ljós í Sjónvarpinu. Við erum samt gríðarlega svekktir að fá svona víti dæmt á okkur," sagði Þorvaldur og lukkan hefur ekki verið í liði með Stjörnunni í vítateignum í sumar.

„Ég veit ekki hvað við erum búnir að fá mörg víti á okkur og á sama tíma erum við ekki búnir að fá eitt víti í allt sumar sem er með hreinum ólíkindum. Svona er þetta bara, við verðum að taka því og reyna að láta það ekki pirra okkur," sagði Þorvaldur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×