Íslenski boltinn

Pape: Markaleysið var farið að kosta andvökunætur

Andri Ólafsson skrifar
Pape í leik gegn KR
Pape í leik gegn KR

Blaðamaður Vísis hefur sjaldan séð sáttari mann eftir knattspyrnuleik en hinn unga og efnilega Pape Mamadou Faye eftir sigurleik Fylkis gegn Þrótti í dag. Pape skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í leiknum. Fallegt skallamark eftir hornspyrnu.

Pape er einn efnilegasti knattspyrnumaður landsins og margir hafa fylgst grannt með framgöngu hans í gegn um yngriflokkastarf Fylkis undanfarin ár. Pape hefur fengið mörg tækifæri til að sanna sig með Meistaraflokki í sumar en þrátt fyrir ágæta spretti hafa mörkin látið sig vanta. Þangað til í dag.

Pape fagnaði markinu enda eins og óður væri og reif sig úr að ofan við mikinn fögnuð áhorfenda í Árbænum.

„Ég varð að rífa mig úr og fagna almennilega. Ég er búinn að bíða svo lengi eftir þessu marki að ég varð að gera það. Ég vissi að það myndi kosta mig mitt þriðja gula spjald í sumar en það var ekki annað hægt en að fagna þessu með stæl."

Var þetta markaleysi farið að íþyngja þér?

"Já. Þetta var farið að verða mjög erfitt. Sumar nætur svaf ég hreinlega ekki. ‚Eg reyndi eins og ég gat að hugsa ekki mikið um þetta en það var ekki annað hægt.

Pape þakkar vini sínum Jordao Diogo, leikmanni KR fyrir að hafa hjálpað sér

„Jordao er mér eins og stór bróðir. Við tölum saman á hverjum degi og hann hjálpar mér mikið. Hann sagði mér til dæmis að hætta að hugsa svona mikið um að reyna skora og einbeita mér frekar að því að spila fótbolta. Ég hef reynt að tileinka mér þetta í undanförnum leikjum"

Heilráð Jordao virðast hafa hitt í mark. Því fyrir utan leikinn í dag skoraði Pape líka í síðustu tveimur leikjum sínum með U-19 ára landsliðinu. Hann hefur því skorað í þremur leikjum í röð.

Pape segir í gríni að þetta gæti líka skrifast á nýju skóna hans.

„Já, þetta var ekki alveg að ganga í appelsínugulu takkaskónum sem ég er búinn að vera að spila í í sumar. Ég ákvað að prófa nýja skó og nú get ég ekki hætt að skora. Ég held að ég sé ekkert að fara að spila í örðum skóm á næstunni."




Tengdar fréttir

Umfjöllun: Fylkismenn kláruðu áhugalausa Þróttara

Fylkismenn unnu sannfærandi sigur á Þrótturum í dag, 2-0. Þróttarar voru fallnir fyrir leikinn í dag en Fylkismenn eru enn í baráttu um Evrópusæti. Bæði mörk Fylkis komu í seinni hálfleik. Albert Brynjar Ingason átti það fyrra en Pape Mamadou Faye það síðara. Viðtöl og nánari umfjöllun um leikinn dettur hér inn á vefinn innan skamms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×