Fótbolti

Gana vill að Balotelli spili með þeim á HM

Óskar Ofeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli í leik með Inter.
Mario Balotelli í leik með Inter. Mynd/AFP
Milovan Rajevac, þjálfari landsliðs Gana, vonast til þess að geta sannfært Mario Balotelli hjá Inter Milan um að spila með landsliði Gana á HM í Suður-Afríku næsta sumar.

Hinn 19 ára gamli Mario Balotelli ólst upp á Ítalíu en foreldrar hans eru frá Gana. Hann yrði löglegur með landsliði Gana af því að hann hefur aldrei spilað fyrir ítalska A-landsliðið. Balotelli hefur hinsvegar spilað leiki með 21 árs landsliði Ítala.

„Ég mun fara til Evrópu eftir HM-dráttinn þar sem ég hitti landsliðsmennina sem spila þar. Ég stefni að því að hitta Mario Balotelli í þeirri ferð," sagði Milovan Rajevac í viðtali við La Gazzetta dello Sport.

„Markmiðið er að hitta fyrirliðann Stephen Appiah í Bologna og taka hann með mér til að hitta Mario og Sulley Muntari. Ég er ánægður með þá leikmenn sem ég hef en Balotelli hefur bara einstaka hæfileika," sagði Rajevac.

Mario Balotelli hefur þegar neitað einu sinni að spila fyrir landslið Gana en það var þegar hann var valinn í æfingaleik á móti Senegal árið 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×