Fótbolti

Pulis gagnrýnir landsleikjafríið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tony Pulis, knattspyrnustjóri Stoke.
Tony Pulis, knattspyrnustjóri Stoke. Nordic Photos / Getty Images

Tony Pulis, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Stoke City, gagnrýnir mjög að næstkomandi miðvikudagur sé frátekinn fyrir landsleiki.

Ísland mætir Slóvakíu á miðvikudaginn en auk hans fara fjöldamargir vináttulandsleikir fram. Aðeins fimm leikir í undankeppni HM 2010 fara fram í Evrópu á miðvikudaginn.

„Leikmenn eru teknir frá okkur nokkrum dögum áður en tímabilið hefst. Það er fáránlegt," sagði Pulis í samtali við breska fjölmiðla.

„Það dugir lítið fyrir Tony Pulis að gagnrýna þetta fyrirkomulag. Hver er Tony Pulis hjá Stoke City? Stóru strákarnir verða líka að láta í sér heyra."

„Ég hef ekkert á móti því að leikmenn taki þátt í alvöru landsleikjum. En við skulum láta þá borga laun og tryggingarkostnað leikmanna og þá skulum við skoða hversu margir vináttulandsleikir fara fram þá."

Stoke mætir Burnley í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn kemur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×