Erlent

Playboy rannsakar skemmtanalíf í háskólum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Frá kappleik við Miami-háskóla, gleðin augljóslega við völd.
Frá kappleik við Miami-háskóla, gleðin augljóslega við völd. MYND/Reuters

Eftir langvinnar rannsóknir og mikla fræðimennsku gerði Playboy það heyrum kunnugt nú fyrir helgina að fjörugasti háskóli Bandaríkjanna væri Háskólinn í Miami. Þeir hjá Playboy tala þarna um „top party school" og birta í ritinu lista yfir þá tíu skóla sem helst eru taldir skara fram úr á þessu sviði.

Litið er til ýmissa þátta í rannsókninni og háskólarnir til dæmis flokkaðir eftir kynjahlutföllum, veðri á svæðinu og þar með því hversu ákjósanlegt er að fara um skólalóðina á sundfatnaði einum klæða, íþróttaiðkun, drykkju nemenda og síðast, en vonandi ekki síst, námsárangri við skólann.

Einn af stjórnendum rannsóknarinnar segir Playboy hafa neyðst til að líta til þess síðastnefnda fyrst fólk fari nú á annað borð í háskóla til að verða sér úti um menntun. Mörgum mun hafa komið á óvart að sjá Háskólann í Madison í Wisconsin í 6. sætinu þar sem almennt séð þyki menn ekki snöggir til teitinnar þar á bæ. Þetta skýrist hins vegar af svokölluðu bikini-hlutfalli sem vísar til veðurs á svæðinu og baðfatanotkunar í skólanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×