Erlent

Myndavélar í breskar skólastofur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Fjórir breskir barnaskólar hafa komið upp eftirlitsmyndavélum með hljóðupptöku í kennslustofunum til að fylgjast með hegðun nemendanna og frammistöðu kennara.

Um er að ræða öflugar myndavélar með 360 gráðu sjónsvið og svo fína upplausn að meira að segja er hægt að fylgjast með því hvað börnin eru að skrifa í kennslustundum. Svo nákvæmt eftirlit í barnaskóla er auðvitað ekki óumdeilt og hafa stéttarfélög kennara látið í sér heyra, til dæmis með þeim rökum að myndavélaeftirlit í kennslustofum þjóni hvorki kennslufræðilegum sjónarmiðum né öryggislegum heldur sé um hreinar persónunjósnir að ræða.

Samkvæmt breskum reglum er aðeins leyfilegt að fylgjast gaumgæfilega með kennsluháttum barnaskólakennara þrjár klukkustundir á ári og þá í kjölfar þess að kvartað hafi verið yfir viðkomandi. Skólarnir fjórir í Manchester sem ríða á vaðið með myndavélaeftirlitið munu því þurfa samþykki kennaranna en forsvarsmenn þeirra kvíða því ekki að nokkur muni mótmæla. Þvert á móti muni myndavélarnar auðvelda kennurunum að halda uppi aga og einbeita sér að þeim nemendum sem þurfi meiri athygli en aðrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×