Enski boltinn

Ancelotti: Það er enginn öruggur með sitt sæti í Chelsea-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, nýr stjóri Chelsea.
Carlo Ancelotti, nýr stjóri Chelsea. Mynd/AFP

Carlo Ancelotti, nýr stjóri enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, stjórnar liðinu í fyrsta sinn í kvöld í æfingaleik á móti bandaríska liðinu Seattle Sounders en Chelsea-liðið er nú mætt alla leið á vesturströnd Bandaríkjanna.

Carlo Ancelotti ætlar að halda öllum leikmönnum á tánum og það verður enginn nafnaleikur á Brúnni næsta vetur. Hvort sem þú heitir Frank Lampard, Didier Drogba eða John Terry þá þarf viðkomandi að standa sig til þess að vinna sér sæti í byrjunarliðinu.

„Ég ætla ekki að velja A-lið eða B-lið hjá Chelsea. Chelsea er frábært lið af því að það hefur 25 frábæra leikmenn og það er ómögulegt fyrir mig að velja sérstakt aðallið. Ég vil hafa 25 leikmenn tilbúna til að spila með Chelsea-liðinu og það er líka enginn öruggur með sitt sæti í Chelsea-liðinu," sagði Carlo Ancelotti.

Þegar Jose Mourinho var stjóri Chelsea þá talaði hann um að níu leikmenn væru með tryggt sæti í liðinu ef að þeir væri heilir. Það voru þeir: Michael Essien, Claude Makelele, Frank Lampard, John Terry, Ricardo Carvalho, Ashley Cole, Didier Drogba, Michael Ballack og Petr Cech. Nú verður fróðlegt að sjá hvernig og hvort einhver forgangsröðun verður hjá Ancelotti.

Carlo Ancelotti er mjög ánægður með liðsmórallinn innan liðsins og segir það hafa komið sér á óvart hversu góður hann sé. Leikmenn sinni öllu af fullum hug og leggja sig allir mikið fram. „Það sem skiptir mestu máli er að ég er búinn að erfa mjög gott lið sem kann að vinna saman í rétta átt," sagði Ancelotti.

Carlo Ancelotti hefur líka tekið enskunáminu mjög alvarlega og hefur meðal annars beðið ítalska blaðamenn að tala við sig á ensku en ekki ítölsku þegar þeir hringja í hann.

„Ég búinn að vera að tala ensku á hverjum degi og ég er orðinn miklu betri en fyrir tíu dögum. Leikmennirnir hjálpa mér líka með því að tala rólega og þá skil ég þá vel," sagði Ancelotti.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×