Innlent

Beint Portúgalsflug varð að 20 tíma kvöl

Allt lék í lyndi hjá Skarphéðni Sigtryggssyni og fjölskyldu úti í Portúgal en ferðirnar til og frá landinu voru mun erfiðari en þau ætluðu.
Mynd/Úr Einkasafni
Allt lék í lyndi hjá Skarphéðni Sigtryggssyni og fjölskyldu úti í Portúgal en ferðirnar til og frá landinu voru mun erfiðari en þau ætluðu. Mynd/Úr Einkasafni

 „Þetta var eiginlega fullmikið fyrir okkur,“ segir Skarphéðinn Sigtryggsson sem keypti Portúgalsferð fyrir fjölskylduna með beinu flugi frá Akureyri en þurfti samt að fljúga um Keflavík og millilenda í Berlín á heimleiðinni.

„Ég er sjálfur kvíðasjúklingur, konan er öryrki og með mikla slitgigt í hnjám og drengurinn er einhverfur og flogaveikur svo okkur leist mjög vel á að geta farið í beinu flugi héðan frá Akureyri. Við keyptum ferðina með góðum fyrirvara en um það bil tveimur vikum fyrir brottför heyrðum við það af tilviljun úti í bæ að hætt hefði verið að fljúga frá Akureyri og farið væri frá Keflavík í staðinn,“ segir Skarphéðinn sem, ásamt eiginkonu sinni og sextán ára syni, keypti tveggja vikna ferð með Úrvali-Útsýn til Portúgal í beinu flugi frá Akureyri í sumar.

Vegna fyrrgreindra aðstæðna fjölskyldunnar var úr vöndu að ráða. „Við hefðum sennilega hætt við ferðina en dóttir okkar, sem býr í Danmörku, var búin að borga ferð til þess að hitta okkur í Portúgal þannig að við létum okkur hafa það og keyrðum til Keflavíkur,“ lýsir Skarphéðinn sem tekur fram að Úrval-Útsýn hafi þó boðist til að greiða flug fyrir fjölskylduna til og frá Akureyri.

Að sögn Skarphéðins var dvölin í Portúgal ánægjuleg. En þar ytra bárust næstu ótíðindi. „Þá fréttum við það niður á Íslendingabar að það yrði ekki beint flug frá Portúgal til Íslands. Dvölin var svo lengd um eina nótt og millilent í Berlín þar sem var sjö tíma bið,“ segir Skarphéðinn sem kveður ferðalagið frá því hótelið var yfirgefið í Portúgal og þar til komið var til Íslands hafa tekið um tuttugu klukkutíma.

„Við vorum komin á hótel í Reykjavík um miðja nótt og orðin sár enda var þetta alls ekki ferðin sem við keyptum,“ segir Skarphéðinn sem skrifaði Úrvali-Útsýn bréf eftir heimkomuna.

„Ég tíundaði það í bréfinu að fólk er misjafnlega í stakk búið til að takast á við svona ferðalög. Inni í þessu er líka einn dagur í vinnutap fyrir utan að láta fara svona með sig. Ég setti ekki fram ákveðnar kröfur en fyndist það ekki mikið þótt við fengjum helmings afslátt af ferðinni. En allt sem ég fékk var mjög stuttaralegt bréf um að þeir myndu borga fyrir okkur matinn í Berlín ef við framvísuðum reikningi,“ segir Skarphéðinn óánægður.

Tinna Guðmundsdóttir hjá Úrvali-Útsýn segir ferðaskrifstofuna hafa verið í rétti til að gera óhjákvæmilega breytingarnar á fluginu. Allir hafi átt þess kost að hætta við ferðina.

„Ferðaskrifstofan spyr ekki um heilsufar fólks og við þekkjum ekki aðstæður allra okkar farþega,“ segir Tinna sem kveður ekki ætlunina að bæta fjölskyldunni frekar upp óþægindin. „Við bendum fólki á að leita til Neytendasamtakanna ef það er ósátt við okkar niðurstöðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×