Enski boltinn

Stoke mun rannsaka meint slagsmál Pulis og Beattie

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
James Beattie fagnar marki í leik með Stoke.
James Beattie fagnar marki í leik með Stoke. Nordic Photos / Getty Images

Knattspyrnufélagið Stoke ætlar að rannsaka meint slagsmál knattspyrnustjórans Tony Pulis og James Beattie í búningsklefa liðsins eftir leik liðsins gegn Arsenal um helgina.

Arsenal vann leikinn, 2-0, og munu þeir Pulis og Beattie hafa rifist heiftarlega eftir leikinn. Fram hefur komið í enskum fjölmiðlum að talið er að þetta sé til komið vegna miskilnings um að gefa leikmönnum frí í dag, mánudag.

Leikmenn Stoke munu hafa átt að fá að dvelja í Lundúnum eftir leikinn vegna jólateitis félagsins. Þeir hafi svo staðið í þeirri trú að þeir þyrftu ekki að mæta á æfingu aftur fyrr en á morgun, þriðjudag.

En Pulis mun hafa sagt leikmönnum eftir leikinn gegn Arsenal að hann ætti von á að sjá þá alla á mánudagsmorgun, rétt eins og venjulega.

Beattie mun hafa mótmælt þessu og þar með reitt Pulis til reiði. Leikmenn mættu svo á æfingu í morgun en Beattie var þar hvergi sjáanlegur.

Síðar var hins vegar greint frá því að Beattie hafi verið að æfa einn í líkamsræktarsalnum þar sem hann væri enn að jafna sig eftir ökklameiðsli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×