England er komið í undanúrslit á EM U-21 landsliða eftir 2-0 sigri á Spánverjum í gærkvöldi.
Það voru Frazier Campbell og James Milner sem skoruðu mörk Englendinga í leiknum.
Stuart Pearce landsliðsþjálfari þótti taka mikla áhættu með því að láta Adam Johnson fá sæti í byrjunarliðinu á kostnað Theo Walcott. Það kom þó ekki að sök.
England er fyrsta liðið í mótinu til að tryggja sér sæti í undanúrslitunum. Liðið hefur unnið báða sína leiki til þessa í B-riðli en Englendingar unnu 2-1 sigur á Finnum um síðustu helgi.
Spánverjar og Þjóðverjar gerðu þá markalaust jafntefli en Þýskaland vann í gær 2-0 sigur á Finnum. Þjóðverjum dugir því jafntefli gegn Englendingum á mánudag til að tryggja sér sæti í undanúrslitunum.
Leikið verður í A-riðli í dag en þar unnu Svíar 5-1 sigur á Hvít-Rússum á mánudaginn og Ítalía og Serbía gerðu markalaust jafntefli.