Innlent

Ummæli Jóhönnu mistúlkuð

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í umræðum á Alþingi í dag að ekki væri nein ástæða til að hafa áhyggjur af ummæli forsætisráðherra um stóriðjumálin á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina. Orð hennar hafi verið mistúlkuð.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina að hún væri sannfærð um að hægt væri að hefja framkvæmdir við álver í Helguvík í vor og að hindrunum yrði ýtt úr vegi vegna lagningar suðvesturlínu í tengslum við álverið. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Steingrím út í málið á þingfundi og vildi vita hvort að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna hefðu rætt málið sín á milli.

Steingrímu sagði að í stöðugleikasáttmálanum standi að það sé vilji ríkisstjórnarinnar að greiða götu þeirra framkvæmda sem þegar höfðu verið ákveðnar. „En það ber ekki og hefur aldrei átt að túlka þessi orð þannig að stæði eitthvað annað til en að framfylgja eðlilegri stjórnsýslu og fara að lögum og reglum þar á meðal lögum um mat á umhverfisáhrifum og stjórnsýslulögum," sagði ráðherrann.

„Það stendur ekkert annað til, og hefur aldrei annað staðið til, en að ástunda faglega og vandaða stjórnsýslu í umhverfisráðuneytinu sem og annars staðar. Það er misskilningur ef menn leggja einhvern annan skilning í stjórnarsáttmálans eða einstaka yfirlýsingar ráðamanna," sagði Steingrímur.

Þá sagði ráðherrann að stjórnarsamstarfið væri gott. „Þó að samstarfið sé gott í þessari ríkisstjórn, ekki síst á milli mín og forsætisráðherra, þá er það ekki svo náið að við semjum ræðurnar fyrir hvort annað á flokksfundum. Það er ekki svo náið en samstarfið er gott."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×