Enski boltinn

Hugarfar Drogba hefur skemmt fyrir Chelsea

NordicPhotos/GettyImages

Álitsgjafinn og fyrrum knattspyrnumaðurinn Paul Parker segir að hugarfar framherjans Didier Drogba hjá Chelsea hafi gríðarlega mikla þýðingu fyrir liðið.

Chelsea náði að saxa á forskot Manchester United á toppi úrvalsdeildarinnar í gær þegar Drogba skoraði sigurmark liðsins í sigri á Portsmouth.

Parker, sem spilaði með Chelsea fyrir rúmum áratug, segir að ef Drogba hefði verið með hugann við efnið í allan vetur, gæti staða þeirra bláu verið betri en hún er í dag.

"Drogba hefur sýnt það síðan Guus Hiddink tók við Chelsea að hann er enn gríðarlega mikilvægur fyrir liðið. Það má vel vera að staða Chelsea væri betri í titilbaráttunni ef Drogba hefði hagað sér eins og atvinnumaður frá byrjun leiktíðar," sagði Parker og vísaði í erfiðleikana sem voru í samstarfi Drogba og Luiz Scolari, forvera Hiddink.

"Drogba hefði átt að vinna vinnuna sína þó honum hafi ekki líkað við Scolari. Við verðum öll að halda áfram að vinna þó okkur líki ekki við alla samstarfsmenn okkar. Drogba hefur ekki hjálpað til með viðmóti sínu þegar á móti blæs og virðist þá oft ekki kæra sig um að spila fyrir liðið. Stjórar koma og fara og þér þarf ekki að líka við alla samstarfsmennina þína, en þú þarft að geta unnið með þeim. Drogba verður að reyna að laga hjá sér hugarfarið ef Chelsea á að ganga vel á næstu leiktíð," var haft eftir Parker á yahoo.com.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×