Fótbolti

Fimmtán enskar borgir vilja halda leiki á HM 2018

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úrslitaleikurinn á HM 2018 í Englandi mun fara fram á Wembley.
Úrslitaleikurinn á HM 2018 í Englandi mun fara fram á Wembley. Mynd/AfP

Það bendir allt til þess að Englendingar fái að halda HM í fótbolta árið 2018 (eða 2022) og fimmtán borgir hafa sýnt áhuga á að halda leiki í keppninni. Lokafrestur til að sækja um að fá að halda leik er á morgun en í framhaldinu munu menn frá enska knattspyrnusambandinu skoða aðstæður á þessum völlum.

Það er þegar ljóst að úrslitaleikurinn mun fara fram á Wembley og þá er nokkuð öruggt að spilað verði á Old Trafford í Manchester. Wembley er einn af fjórum leikvöngum sem koma til greina í London en hinir eru Emirates-leikvangur Arsenal-liðsins, endurgerður White Hart Lane og nýr Ólympíuleikvangur sem verður tekin í notkun fyrir leikana 2012.

Lágmarkið fyrir að hýsa HM-leik er að leikvöllurinn geti tekið við 40 þúsund áhorfendum. Borgir eins og Bristol, Milton Keynes, Hull og Portsmouth þurfa því allar að stækka sína velli eða byggja nýja ætli þær að fá að taka þátt í að halda HM í Englandi eftir níu ár.

Þessar borgir vilja hýsa leiki á HM 2018: Birmingham, Bristol, Derby, Hull, Leeds, Leicester, Liverpool, London, Manchester, Milton Keynes, Newcastle/Gateshead, Nottingham, Portsmouth, Sheffield og Sunderland.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×