Enski boltinn

Everton vann West Ham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Everton fagna fyrra marki sínu í dag.
Leikmenn Everton fagna fyrra marki sínu í dag. Nordic Photos / Getty Images

Everton vann í dag góðan útisigur á West Ham í ensku úrvalsdeildinni en Wigan og Fulham skildu jöfn, 1-1.

Louis Saha kom Everton yfir í fyrri hálfleik en haltraði svo meiddur af velli í upphafi síðari hálfleiks. Dan Gosling náði þó að auka forystu Everton um miðjan síðari hálfleik eftir fínan undirbúning varamannsins Yakubu.

Aðeins mínútu síðar náði þó Junior Stanislas að minnka muninn fyrir West Ham. Hann náði skoti að marki og var boltinn á leiðinni inn þegar Tony Hibbert mistókst að hreinsa frá marki og skaut boltanum í eigið net. Markið verður þó sennilega skráð á Stanislas.

West Ham sótti nokkuð stíft undir lokin og var nálægt því að jafna metin en allt kom fyrir ekki.

Þetta var kærkominn sigur fyrir Everton sem komst upp í tólfta sæti deildarinnar. West Ham er þó enn í fallsæti með tíu stig.

Í hinum leiknum kom Emmerson Boyce Wigan yfir á 13. mínútu en Clint Dempsey náði að jafna metin fyrir Fulham úr vítaspyrnu áður en flautað var til hálfleiks. Ekkert mark var svo skorað í síðari hálfleik og niðurstaðan því jafntefli.

Bæði lið eru að sigla nokkuð lygnan sjó um miðja deild. Fulham er í ellefta sæti með fimmtán stig og Wigan í því þrettánda með fjórtán.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×