Innlent

Ísland er engu að síður ódýrt

Erlendir ferðamenn sem skoða verð hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum, átta sig ekki á því að gengi íslensku krónunnar er annað erlendis en hér.
Erlendir ferðamenn sem skoða verð hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum, átta sig ekki á því að gengi íslensku krónunnar er annað erlendis en hér.

Tvöföld gengis­skráning íslensku krónunnar hér á landi og erlendis truflar ferðaþjónustuna hér á landi. Ferðamenn, sem skoða verð til dæmis á netinu, og miða við gengi íslensku krónunnar erlendis reikna út allt annað verð en miðað við gengið hér.

Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, kannast við þennan vanda og segir hann helst eiga við um einstaklinga sem skoði og kaupi ferðir á Netinu, umreikni verðið í sinn gjaldmiðil og noti þá gengi erlendis sem sé allt annað en hér. „Þá kemur upp þessi misskilningur en þegar maður útskýrir málið þá skilja menn þetta,“ segir Steingrímur.

Hann kveðst bregðast við með því að umreikna verðið í evrum á gengi Seðlabankans. „Ísland er samt ódýrt þó að maður noti það gengi miðað við hvernig það var. Ef maður notar seðlabankagengið er það bara gefins,“ segir hann.

Steingrímur verður ekki mikið var við þetta vandamál. „Við höfum ekki mörg svona dæmi en örfá og þá hefur starfsmaðurinn bent viðskiptavininum á að við tökum að sjálfsögðu við upphæðinni í krónum ef viðskiptavinurinn getur keypt krónur í sínum banka, til dæmis í Þýskalandi. Við gefum verðið upp í krónum á heimasíðunni og fáum þá uppsett verð.“

Ferðaþjónustufyrirtæki eru með samninga við erlendar ferðaskrifstofur í evrum og annarri mynt og eru þeir miðaðir við gamalt gengi. Einstaklingar sem kaupa ferðina á Netinu hafa hins vegar ekki upplýsingar um gengis­skráningu hér á landi.- ghs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×