Enski boltinn

Eduardo segist ekkert hafa heyrt frá Taylor

Framherjinn Eduardo hjá Arsenal átti frábæra endurkomu í vikunni þegar hann skoraði tvívegis fyrir Arsenal í sínum fyrsta alvöruleik í eitt ár síðan hann fótbrotnaði illa í leik gegn Birmingham.

Fótur Brasilíumannsins mölbrotnaði eftir tæklingu frá Martin Taylor og svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir að Eduardo gæti jafnvel ekki spilað knattspyrnu aftur.

Taylor hélt því fram eftir þessa ljótu uppákomu að hann hefði farið á sjúkrahúsið og beðið Eduardo afsökunar, en Arsenal-maðurinn segist enn ekkert hafa heyrt frá Taylor.

"Vinir mínir höfðu það eftir honum að hann hefði sagt að hann hefði talað við mig, en það gerði hann ekki. Ég hef aldrei hitt hann," sagði Eduardo í samtali við Sun.

"Einhver frá Arsenal fékk tölvupóst frá Taylor þegar ég spilað fyrir varaliðið fyrir nokkru og sagði að hann væri ánægður að ég væri farinn að spila aftur," sagði Eduardo.

Hann segist hafa fengið mikinn stuðning úr öllum áttum, en ekki frá þeim brotlega.

"Ég hef fengið hauga af póst frá fólki í Króatíu, Brasilíu og Englandi þar sem mér er óskað allt hið besta, en ég hef ekki fengið neitt beint frá Taylor. Ég vil hinsvegar ekki tala um þetta atvik. Það er líklega best að gleyma því," sagði Eduardo.

Taylor hefur tjáð sig um atvikið og í samtali við Daily Mail sagðist hann fagna því að Eduardo væri að ná bata. Hann ítrekaði að hann hefði farið oftar en einu sinni að reyna að hitta Brasilíumanninn, en hann hefði ekki verið í ástandi til samræðna á því stigi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×