Íslenski boltinn

Kári: Það þýðir ekkert að tapa öllum leikjum fram að bikarleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Ársælsson, fyrirliði Blika.
Kári Ársælsson, fyrirliði Blika. Mynd/Stefán

Kári Ársælsson, fyrirliði Blika, var ekki mjög ósáttur með leik sinna manna þrátt fyrir 0-2 tap á móti KR í dag en hann segir að liðið hafi misst kraftinn þegar KR-ingar komust í 2-0.

„Þetta er hálf fúlt og maður eru svekktur eftir þennan leik. Við náðum að skapa okkur fullt af færum og mér fannst þeir ekki vera að skapa sér neitt rosalega mikið. Þeir nýttu sín færi og við nýttum ekki okkar. Það stendur uppi í þessum leik. Við skjótum sem dæmi í stöngina eftir nokkrar sekúndur í seinni hálfleik og það hefði verið rosalega gott ef boltinn hefði dottið inn þar," sagði Kári.

„Eftir að þeir komust í 2-0 vantaði svolítið broddinn í okkur að ná að pressa þá almennilega. Við vorum þá orðnir þreyttir, þeir voru að halda boltanum frá okkur og við sköpuðum ekki mikið eftir það nema að ég skoraði mark sem ég vil meina að hafi ekki verið rangstaða," segir Kári en hann skallaði þá inn fyrirgjöf Kristins Jónssonar átta mínútum fyrir leikslok.

„Ég spurði Einar dómara af því hver hefði verið rangstæður en hann sagðist ekki hafa hugmynd um það.Ég verð að skoða það bara í sjónvarpinu en mark þar hefði gefið okkur von til að koma til baka," sagði Kári.

Blikar eiga enn eftir tvo deildarleiki áður en þeir spila bikarúrslitaleikinn á móti Fram. „Það er mjög mikilvægt að halda sér á tánum og það þýðir ekkert að tapa öllum leikjum fram að bikarleiknum og koma með einhverja taphrinu inn í úrslitaleikinn. Við tökum bara næsta leik og ætlum að vinna hann," sagði Kári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×