Innlent

Mistök þegar Vinnumálastofnun stöðvaði greiðslur atvinnuleysisbóta

Róbert Spanó, umboðsmaður Alþingis.
Róbert Spanó, umboðsmaður Alþingis.

Starfsmenn Greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd gerðu mistök þegar atvinnulaus einstæð móðir lenti í því að greiðslum atvinnuleysisbóta til hennar var frestað vegna þess að hún hafði fengið greidd mæðralaun. Vísir greindi frá málinu á sínum tíma og í framhaldi af því fór Umboðsmaður Alþingis fram á það við Vinnumálastofnun að þetta yrði útskýrt og hversu margir hefðu ekki fengið greitt á réttum tíma af sömu sökum.

Í svarbréfi stofnunarinnar kemur fram að mistök hefðu orðið við samkeyrslu við staðgreiðslugrunn ríkisskattstjóra. Vinnumálastofnun hefur nú yfirfarið verklag sitt vegna samkeyrslunnar til þess að svipað óvissuástand komi ekki upp aftur. Þá segir að fyrrgreind aðgerð hafi verið óundirbúin og ákvörðun um samkeyrsluna var tekin án samráðs við yfirstjórn stofnunarinnar. „Vinnumálastofnun leggur mikla áherslu á það gagnvart starfsmönnum sínum að þeir séu meðvitaðir um ábyrgð stofnunarinnar sem vörsluaðila opinberra fjármuna en það verður að viðurkennast að í þessu tilviki réði meira kapp en forsjá," segir meðal annars í svarinu.

Með tilliti til þessara skýringa segist Umboðsmaður ekki sjá ástæðu til þess að aðhafast frekar vegna málsins.

Álit umboðsmanns.








Tengdar fréttir

Fékk sjokk þegar bæturnar skiluðu sér ekki

„Að stöðva svona greiðslu án neins fyrirvara er náttúrulega fáránlegt. Þú getur ímyndað þér sjokkið sem maður fær," segir Linda Magnúsdóttir, einstæð fjögurra barna móðir sem þiggur atvinnuleysisbætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×