Fótbolti

Latur Berbatov vekur reiði í heimalandinu

Berbatov þykir sporlatur með búlgarska landsliðinu. Hér styttir hann sér leið á sláttuvélinni í Sofiu fyrir leikinn gegn Georgiu
Berbatov þykir sporlatur með búlgarska landsliðinu. Hér styttir hann sér leið á sláttuvélinni í Sofiu fyrir leikinn gegn Georgiu AFP

Stjörnuframherjinn Dimitar Berbatov hjá Manchester United þótti fjarri sínu besta með landsliði sínu í leikjum gegn Ítölum og Georgíumönnum.

Breska blaðið Sun segir að þjálfari búlgarska landsliðsins og varaforseti knattspyrnusambandsins í landinu séu mjög ósáttir við slaka frammistöðu framherjans. Liðið gerði markalaust jafntefli í báðum leikjum.

"Berbatov var skugginn af sjálfum sér og ef menn vilja ekki spila fyrir Búlgaríu, þá verða þeir einfaldlega ekki valdir í liðið," sagði landsliðsþjálfarinn Plamen Markov.

Sun segir að ósáttir stuðningsmenn landsliðsins hafi kastað eggjum og klósettpappír í áttina að landsliðsmönnunum á flugvellinum í Sofia í gær.

Varaforsetinn Yordan Lechkov gagnrýndi Berbatov fyrir leti á dögunum og því er haldið fram í Búlgaríu að framherjinn gæti jafnvel misst sæti sitt í liðinu.

"Hlutverk Berbatov er að skora mörk og hlutverk landsliðsins er að vinna leiki. Hann hljóp aðeins tvo kílómetra á móti Ítölum, en leikmaður hleypur venjulega níu til tíu kílómetra á 90 mínútum. Berbatov er fyrirliði liðsins og hann á að vera fyrirmynd annara leikmanna," sagði varaforsetinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×