Fótbolti

Eiður: Messi er besti leikmaður heims

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári og Lionel Messi í leik með Barcelona.
Eiður Smári og Lionel Messi í leik með Barcelona. Nordic Photos / Getty Images

Eiður Smári Guðjohnsen segir í viðtali við spænska miðla að hann telji að Lionel Messi, félagi sinn hjá Barcelona, sé betri en Cristiano Ronaldo.

Margir reikna með því að Ronaldo verði kosinn bæði knattspyrnumaður ársins í Evrópu sem og besti leikmaður heims hjá Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA.

Það kemur Eiði ekki á óvart. „Ég tel að það sé eðlilegt að leikmaður sem er hjá sigurliði hljóti slíkar viðurkenningar. Við unnum enga titla á síðustu leiktíð. En þegar að Barcelona og Manchester United mættust í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð mátti öllum vera ljóst að Messi er betri leikmaður," sagði hann.

Eiður meiddist í landsleik Íslands og Makedóníu í upphafi síðasta mánaðar og hefur síðan þá ekkert spilað með Börsungum. Fyrir landsleikinn var hann búinn að standa sig vel með Börsungum og skoraði til að mynda eitt mark í 6-1 stórsigri Barcelona á Atletico Madrid.

En Eiður segist þess fullviss að hann fái tækifærið á nýjan leik af sömu ástæðum að hann ákvað að vera um kyrrt í herbúðum félagsins í sumar. „Ein af ástæðum þess að ég ákvað að vera áfram hjá Barcelona var að Pep Guardiola sagði að ef ég yrði áfram yrði ég hluti af hans áætlunum fyrir liðið."

„Ég sagði honum að ég hafði ekki áhuga á því að vera hjá Barcelona bara til þess eins. Ég vildi fá mitt hlutverk með liðinu."

„Ég hef mikinn metnað, sérstaklega þar sem liðið hefur ekki unnið neina titla síðan ég kom hingað. En eftir einn fund með honum var ég ekki lengur í neinum vafa um þetta."

Hann segir að stemningin í leikmannahópi Barcelona sé allt önnur og betri en á síðustu leiktíð. Það sé nýja stjóranum að þakka.

„Við erum að æfa meira og það ríkir meiri agi á æfingum. Okkur er skylt að mæta fyrr en áður og borða morgunmat saman og stundum hádegismat eftir æfingar. Það eru nokkur smáatriði sem hafa breyst."

„Við virðumst ná betur saman sem liðsheild og það ríkir meiri virðing á milli leikmanna. Það er líka mjög ánægjulegt að sjá þegar vinnan skilar sér í betri árangri á vellinum. Ég held að við getum náð góðum árangri á þessu tímabili."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×