Fótbolti

Grétar Rafn: Ekkert frí í landsleikjahlénu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar Rafn fagnar marki með Bolton.
Grétar Rafn fagnar marki með Bolton. Nordic Photos / Getty Images

Grétar Rafn Steinsson segir að hann fái lítið svigrúm til að hvíla sig og safna kröftum fyrir átökin í ensku úrvalsdeildinni í landsleikjahlénu sem er framundan.

Grétar Rafn er nú staddur í Hollandi með íslenska landsliðinu sem leikur þar á laugardagskvöldið. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Hann sagði í samtali við Manchester Evening News að það sé þétt dagskrá framundan hjá honum.

„Þetta er erfitt. Það er ekki eins og að íslenska landsliðið haldi mikið boltanum. Við þurfum að hlaupa mikið og berjast á fullu," sagði hann.

„Eftir leikinn gegn Makedóníu á miðvikudaginn tekur strax við ferðalagið aftur til Englands og allt þetta álag getur haft sitt að segja."

„En við erum atvinnumenn. Við reynum að æfa, borða og hvíla okkur vel og undirbúa okkur fyrir næsta leik eins vel og kostur vel. Við vitum vel hvað við þurfum að gera og þurfum við bara að passa okkur á því að gæta okkar þegar við erum á ferðalögum erlendis með landsliðinu."

Grétar átti ríkan þátt í öðru markanna í 3-1 sigri Bolton á West Ham um helgina.

„Það var gríðarlega mikilvægt að ná fyrsta sigrinum á útivelli. Við höfum stundum verið að spila vel en úrslitin hafa ekki verið okkur í hag eins og gegn Newcastle."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×