Fótbolti

Ísland mætir Írlandi í umspilinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslensku landsliðskonurnar fagna marki.
Íslensku landsliðskonurnar fagna marki. Mynd/Pjetur

Ísland mætir Írlandi í umspili um laust sæti á EM í Finnlandi sem fer fram á næsta ári. Íslendingar geta vel unað við dráttinn.

Fyrri leikurinn fer fram í Írlandi 25. eða 26. október en sá síðari hér á Íslandi annað hvort 29. eða 30. október.

Ísland mætti síðast Írlandi á Algarve Cup í Portúgal í byrjun mars á þessu ári og vann þá 3-1 sigur. Liðin mættust einnig á sama móti í fyrra og skildu þá jöfn, 1-1.

Óhætt er að segja að þetta hafi verið óskadráttur fyrir Sigurð Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfara þar sem Ísland hefði getað mætt Tékklandi sem var án efa langsterkasta liðið af þeim þremur sem Ísland gat mætt. Ísland gat einnig dregist gegn Skotlandi.

Ísland er í átjánda sæti styrkleikalista FIFA, Tékkland í 21. sæti, Skotland í því 26. og Írland í 28. sæti.

Drátturinn var eftirfarandi:

Írland - Ísland

Tékkland - Ítalía

Skotland - Rússland

Slóvenía - Úkraína

Spánn - Holland

Sigurvegarar þessara fimm viðureigna fá þátttökurétt á EM í Finnlandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×