Innlent

Þúsundir gætu misst vinnuna

Þúsundir gætu misst vinnuna ef fasteignamarkaðurinn og þar með byggingariðnaðurinn stöðvast, segir langreyndur fasteignasali sem telur að fasteignaverð geti hækkað verulega ef langvarandi samdráttur verður í fasteignaviðskiptum. Frjálsi fjárfestingarbankinn er hættur að veita myntkörfulán til íbúðakaupa og veitir aðeins takmörkuð krónulán.

Mun færri hafa tekið húsnæðislán hjá bönkunum á þessu ári en á sama tíma í fyrra og þau hafa raunar hrapað frá því bankarnir þustu inn á markaðinn fyrir hálfu fjórða ári, með lágum vöxtum sem nú hafa snarhækkað. Ekki eru komnar tölur fyrir útlán bankanna í mars en í febrúar tóku 132 einstaklingar húsnæðislán - miðað við 396 á sama tíma í fyrra - og 1102 árið þar á undan. Ástæðan er ekki sú að menn flýi bankana og leiti til Íbúðalánasjóðs, því þar hefur nýjum lánum líka fækkað. Bankarnir halda auk þess að sér höndum, Frjálsi fjárfestingarbankinn tekið fyrir gengisbundin íbúðalán og krónulán eru aðeins veitt upp að 50% veðmörkum.

Sverrir Kristinsson hefur selt fasteignir í 40 ár. Ef samdrátturinn varir í einhvern tíma, óttast Sverrir að fasteignaverð hækki verulega þegar losnar um lánsfé. Fasteignir verði þá dýrari og lánin þar með hærri.

Sverrir bendir á að fasteignamarkaðurinn hafi gengið ágætlega áður en bankarnir byrjuðu að lána og háir vextir þar þurfi ekki að hamla fasteignaviðskiptum. Lífeyrissjóðirnir eigi um 1600 milljarða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×