Erlent

Hluti af eldflaug féll nærri kamri

Fylgst með geimskoti. Myndin tengist ekki fréttinni.
Fylgst með geimskoti. Myndin tengist ekki fréttinni.

Bóndi, sem rekur býli sitt nærri Baikonur-geimskotstöðinni í Kasakstan, hefur stefnt hinni rússnesku Roskosmos-geimferðastofnun eftir að þriggja metra langur málmhlutur féll af geimflaug og lenti á landareign hans, aðeins steinsnar frá kamrinum. Bóndinn, Boris Urmatov, krefst einnar milljónar rúblna, jafnvirði um 3,1 milljónar króna, í miska- og skaðabætur af geimferðastofnuninni sem hefur aðstöðuna í Kasakstan á leigu.

Fólk búsett nærri skotpallinum kveðst hafa orðið vart við fallandi málmhluti í tíma og ótíma en á móti kveðst Roskosmos-stofnunin reglubundið vara íbúa á svæðinu við fyrirhuguðum geimskotum og heldur því fram að það sé samkvæmt áætlun að vissir hlutar geimflauganna falli af þeim skömmu eftir skot. Þeim sé hins vegar ætlað að lenda innan marka vissra svæða. „Ef dómstóll úrskurðar að bætur skuli greiðast greiðum við þær að sjálfsögðu," sagði Alexander Vorobyov, talsmaður Roskosmos-stofnunarinnar. Hann bætti því við að komið hefði fyrir að fólk færði hluta af geimflaugum inn á landareignir sínar og krefðist svo bóta í framhaldinu en slíkt væru auðvitað undantekningartilfelli. Dagblaðið Izvestia greindi frá því að stofnunin hefði einungis einu sinni greitt bætur vegna tjóns af völdum eldflaugahluta, það hefði verið árið 2001 og upphæðin 10.000 rúblur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×