Enski boltinn

Adebayor lítur upp til Henry

Elvar Geir Magnússon skrifar
Emmanuel Adebayor fagnar marki sínu gegn Blackburn í gær.
Emmanuel Adebayor fagnar marki sínu gegn Blackburn í gær.

Emmanuel Adebayor, sóknarmaður Arsenal, þakkar Thierry Henry að hluta fyrir markaskorun sína á tímabilinu. Adebayor hefur svo sannarlega náð að fylla skarðið sem Henry skildi eftir sig þegar hann fór til Barcelona.

„Thierry er eins og stóri bróðir minn. Hann sendir mér oft skilaboð í símann þar sem hann hvetur mig áfram og segist hafa trú á mér ef ég einbeiti mér í hverjum leik. Ég reyni að fara eftir ráðleggingum eldri leikmanna," sagði Adebayor.

„Ég vil þakka honum fyrir því hann hefur hjálpað mér mikið. Við erum reglulega í sambandi. Hann ræddi mikið við mig síðasta sumar þegar hann var á förum. Við eigum margt sameiginlegt og líkar vel við hvorn annan."

Þá segir Adebayor að með sigrinum gegn Blackburn í gær hafi Arsenal nálgast enska meistaratitilinn enn frekar. Hann skoraði seinna mark Arsenal í 2-0 sigri.

„Kolo Toure, Emmanuel Eboue og Alexandre Song eru allir að koma aftur. Okkur hefur gengið vel í þeirra fjarveru og verðum enn sterkari þegar þeir eru mættir aftur. Titilbaráttunni er þó langt í frá lokið og þetta verður ekki auðvelt," sagði Adebayor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×