Enski boltinn

Hef lengi beðið eftir að komast til Bolton

Grétar Rafn Steinsson hefur nú loksins verið kynntur formlega til sögunnar sem nýr leikmaður Bolton. Grétar lýsti yfir ánægju sinni með vistaskiptin í viðtali á heimasíðu félagsins nú síðdegis.

Grétar var keyptur frá hollenska liðinu AZ Alkmaar fyrir tæpar 450 milljónir króna, sem er eitt hæsta verð sem félagið hefur greitt fyrir varnarmann.

"Ég kom hingað til reynslu fyrir fimm og hálfu ári síðan og kannast því við nokkra af leikmönnum liðsins. Ég er mjög ánægður með að vera loksins kominn hingað því ég var ósáttur við að fá ekki samning hérna á sínum tíma. Ég er búinn að bíða lengi - en nú er biðin loksins á enda," sagði Grétar á heimasíðu Bolton.

Hann segir Guðna Bergsson hafa átt stóran þátt í því að hann ákvað að fara til Bolton. "Guðni vildi að ég færi hingað og sagði mér góða hluti um Sam Allardyce. Ég talaði líka við fyrrum leikmenn félagsins eins og Arnar Gunnlaugsson og Eið Smára Guðjohnsen og þeir sögðu mér góða hluti um Bolton."

Fyrir í herbúðum Bolton er framherjinn Heiðar Helguson og Grétar segir að það hafi líka greitt leið sína til Englands.

"Ég talaði við Heiðar í síðustu viku og hann sagði mér að ég væri galinn ef ég kæmi ekki. Ég var þegar búinn að gera upp hug minn og sagði forráðamönnum Alkmaar að þetta væri rétta tækifærið fyrir mig," sagði Grétar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.