Enski boltinn

Anelka vildi koma aftur til Arsenal

NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger segir að framherjinn Nicolas Anelka hafi langað mikið til að ganga í raðir Arsenal á ný nú í janúar, en stefna Arsenal í leikmannamálum hafi komið í veg fyrir að úr því yrði.

Það var Wenger sem keypti Anelka til Englands á sínum tíma þegar hann fékk hann á sannkölluðu útsöluverði frá PSG fyrir 500,000 pund. Hann var skömmu síðar seldur til Real Madrid og hafði Arsenal rúma 21 milljón punda í gróða út úr þeim viðskiptum.

Wenger hefur nú baunað aðeins á landa sinn með því að segja að hann hafi virkilega langað að ganga í raðir Arsenal á ný.

"Nicolas langaði að koma aftur hingað til Arsenal og ég íhugaði að kaupa hann því mig langaði að gera upp fortíðina, en við fylgjum þeirri stefnu að sætta okkur við það þegar leikmaður á annað borð fer héðan," sagði Wenger.

"Við keyptum hann árið 1997 og hann hefur síðan viðurkennt að hann hafi gert mistök þegar hann ákvað að fara héðan. Hann var fastamaður í franska landsliðinu á þessum tíma en svo var það Thierry Henry sem hirti af honum sætið. Anelka hefur síðan ekki verið hjá toppliði og var vonsvikinn, en núna er hann kominn í sterkt lið aftur," sagði Wenger í samtali við Daily Mail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×