Enski boltinn

Sex leikir í enska bikarnum í kvöld

Berbatov hefur verið óstöðvandi gegn Reading í vetur
Berbatov hefur verið óstöðvandi gegn Reading í vetur NordicPhotos/GettyImages

Nokkrir áhugaverðir leikir eru á dagskrá í enska bikarnum í kvöld þar sem um er að ræða aukaleiki í þriðju umferð keppninnar. Leikur Liverpool og Luton verður sýndur beint á Sýn klukkan 19:50.

Þá verður áhugavert að fylgjast með viðureign Reading og Tottenham á Madejski þar sem heimamenn munu reyna að koma böndum á framherjann Dimitar Berbatov, sem hefur skorað hvorki meira né minna en sex mörk gegn Reading í vetur. Það kemur líklega í hlut Ívars Ingimarssonar að hafa gætur á Búlgaranum öfluga, en Reading mun að mestu tefla fram varaliði sínu í kvöld.

"Berbatov er gæðaleikmaður og hann er sterkari en hann lítur út fyrir að vera. Það er mjög erfitt að vinna af honum boltann. Við verðum að verjast honum betur og það er undir þeim komið sem dekka hann hverju sinni," sagði Steve Coppell, þjálfari Reading.

Tveimur leikjum hefur verið frestað vegna vatnsviðris í kvöld, en það eru leikir Sheffield Wednesday-Derby og Barnet-Swindon. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×