Enski boltinn

Manuel Fernandes aftur til Everton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manuel Fernandes í leik með Everton gegn Chelsea á síðustu leiktíð.
Manuel Fernandes í leik með Everton gegn Chelsea á síðustu leiktíð. Nordic Photos / Getty Images

Everton og Valencia hafa gengið frá lánssamningi þess efnis að Manuel Fernandes leiki með fyrrnefnda liðinu út leiktíðina.

Fernandes er portúgalskur miðvallarleikmaður og var lánaður til Everton fyrir ári síðan frá Benfica. Hann varð fljótt í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum liðsins.

Í vor komst hann að munnlegu samkomulagi um að skrifa undir langtímasamning við Everton en hann hætti við á síðustu stundu og ákvað frekar að ganga til liðs við Valencia.

„Hann þekkir okkur og við þekkjum hann," sagði David Moyes, stjóri Everton. „Við erum full fámennir á miðjunni og hann eykur samkeppni um stöðu í byrjunarliðinu."

Þetta gæti stuðlað að því að Bjarni Þór Viðarsson fari frá Everton en hann hefur afar fá tækifæri fengið með aðalliði Everton á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×