Enski boltinn

58 útileikir í röð án sigurs á þeim stóru

Tottenham á enn mjög langt í land með að ná toppliðunum á Englandi
Tottenham á enn mjög langt í land með að ná toppliðunum á Englandi NordicPhotos/GettyImages

Tottenham hefur ekki sótt gull í greipar hinna fjögurra stóru á Englandi undanfarin ár. Í skemmtilegri samantekt Opta kemur í ljós að liðið hefur aðeins unnið tvo af 63 leikjum sínum gegn bestu liðum Englands á útivelli frá stofnun úrvalsdeildarinnar.

Tottenham var betri aðilinn í leiknum gegn Arsenal á Emirates í gærkvöldi þar sem liðin mættust í fyrri viðureign sinni í undanúrslitum enska deildarbikarsins. Tottenham komst yfir í leiknum, en eins og venjulega, náði liðið ekki að landa sigrinum.

Lundúnaliðið hefur síðustu ár hótað því að komast inn í hóp Manchester United, Arsenal, Chelsea og Liverpool með því að hafna í fimmta sæti deildarinnar tvö ár í röð. Væntingarnar voru því meiri en nokkru sinni fyrr í sumar eftir að félagið hafði enn á ný eytt vænum summum til leikmannakaupa.

Annað kom heldur betur á daginn og var Martin Jol knattspyrnustjóri látinn taka pokann sinn í haust eftir skelfilega byrjun liðsins í deildinni - byrjun sem þýðir að liðið á nú enga möguleika á að blanda sér í baráttuna um sæti í Meistaradeildinni.

Tottenham hefur aðeins tvívegis unnið útileik á móti stórliðunum fjórum frá stofnun úrvalsdeildarinnar og komu báðir sigrar árið 1993. Annar sigurinn var sigur á Arsenal á Highbury þá um vorið, en þá hvíldi Arsenal reyndar flesta byrjunarliðsmenn sína fyrir úrslitaleikinn í bikarnum.

Hinn útisigurinn var 2-1 sigur á Liverpool á Anfield þar sem Teddy Sheringham skoraði bæði mörk Tottenham og tryggði því sigur eftir að liðið hafði lent undir 1-0.

Síðan þá hefur útileikur við þau stóru verið tómur höfuðverkur fyrir Tottenham - sem hefur ekki unnið einn einasta af síðustu 58 útileikjum sínum gegn þeim stóru.

Aldrei hefur þó gengið verið jafn skelfilegt og á allra síðustu árum, þar sem Tottenham hefur aðeins náð í 1 stig af 21 mögulegu á útivelli í þessum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×