Enski boltinn

Briatore vill ekki sjá ítalska boltann

Flavio Briatore
Flavio Briatore NordicPhotos/GettyImages

Flavio Briatore, liðsstjóri Renault í Formúlu 1 og meðeigandi í knattspyrnufélaginu QPR, segir ekki hafa komið til greina fyrir sig að fjárfesta í ítölsku knattspyrnufélagi.

Hann segir knattspyrnuheiminn á Englandi flekklausan og sanngjarnan, en slíkt sé ekki hægt að segja um fótboltann í heimalandi sínu, Ítalíu.

"Hérna á Englandi er maður í sanngjörnu kapphlaupi á hreinum markaði þar sem eru engin skuggasund," sagði Briatore í samtali við ítölsku útgáfuna af GQ. "Hérna verða menn dæmdir af verkum sínum og engu öðru, enda eru hér á Englandi margir erlendir fjárfestar á meðan þú finnur ekki einn einasta útlending á Ítalíu," sagði Briatore.

Hann er ekki bjartsýnn á framtíð ítalska boltans þrátt fyrir að þar hafi verið mokað nokkuð út úr spillingarfjósinu á síðustu misserum.

"Það eru aðeins útvaldir sem fá stöðu í knattspyrnunni og öllu öðru, vhort sem það eru fjármál eða pólitík - utanaðkomandi fá þar ekki einu sinni að taka þátt - hvað þá að vinna. Ég kaus því að halda mig frá þessu. Ég vil vera dæmdur af verkum mínum einum saman," sagði Ítalinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×