Enski boltinn

Múrari og öskukarl stefna á Anfield

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Markahetjan Rocky Baptiste og Jamie Slabber fagna jafnteflinu gegn Swansea.
Markahetjan Rocky Baptiste og Jamie Slabber fagna jafnteflinu gegn Swansea. Nordic Photos / Getty Images

Havant & Waterlooville er eina utandeildarliðið sem er eftir í ensku bikarkeppninni og stefnir að því að komast í fjórðu umferð þar sem næsti andstæðingur gæti verið Liverpool á Anfield Road.

Fyrst þarf liðið að vinna Swansea á heimavelli sínum, West Leigh Park í Havant, en liðin gerðu 1-1 jafntefli nú um helgina.

Liðið er vitanlega fyrst og fremst skipað áhugamönnum sem afla fyrst og fremst tekna af öðrum störfum. Einn leikmaður er öskukarl og annar sundlaugavörður, svo dæmi séu tekin.

Miðvallarleikmaðurinn Brett Poate starfar sem múrari á daginn en hann ætlar sér sigur gegn Swansea eins og félagar sínir. Stjórnarformaður Havant & Waterlooville hefur meira að segja lofað leikmönnum þriggja daga ferð til Las Vegas í lok tímabilsins ef þeim tekst að komast í fjórðu umferð.

„Ég fór þangað þegar ég var tvítugur en mátti hvorki spila fjárhættuspil eða drekka áfengi þá. Ég hefði því mjög gaman af því að fara aftur," sagði Poate sem hóf ferilinn sem táningur hjá Southampton.

Það er talsvert meira en leikmenn fengu fyrir að komast í þriðju umferðina. Þá fengu þeir bónusgreiðslu upp á 100 pund, um tólf þúsund krónur.

Hann spáir sínu liði 2-1 sigri í leiknum gegn Swansea. Poate vonast einnig til að eiga ríkan þátt í sigri liðsins svo hann komist að í Match of the Day, þætti á BBC þar sem fjallað er um leiki dagsins í enska boltanum.

„Það væri frábært því það myndi hjálpa mér að komast á stefnumót," sagði Poate. „Atvinnumenn eru auðvitað vel þekktir og eiga í engum vandræðum með að ná sér í stelpur. Það er ekki beinlínis raunin í Havant," bætti múrarinn geðþekki við.

Markahetjan Rocky Baptiste komst vitanlega í Match of the Day um helgina eftir að hann skoraði jöfnunarmark sinna manna gegn Swansea. En hann er nú þegar giftur.

„Það fyrsta sem ég gerði eftir leikinn var að hringja í Teneku, eiginkonu mína, og fá hana til að taka þáttinn upp," sagði Rocky.

Leikur liðanna um helgina var afar fjörlegur, tvö glæsileg mörk litu dagsins ljós auk þess sem leikmenn Swansea áttu þrjú skot í slána. Þá fengu tveir leikmenn rautt eftir ansi skrautlega tveggja fóta tæklingu og slagsmál sem brutust út í kjölfarið. Sjá má samantekt úr leiknum hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×