Enski boltinn

Mourinho sagður hafa áhuga á Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, fyrrum stjóri Chelsea.
Jose Mourinho, fyrrum stjóri Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Jose Mourinho hefur verið orðaður við fjölda liða að undanförnu og hefur Liverpool bæst í þann hóp.

Breskir fjölmiðlar vilja meina að staða Rafael Benitez, núverandi knattspyrnustjóra Liverpool, sé viðkvæm. Bandarískir eigendur liðsins munu vera að leita af knattspyrnustjóra til að ráða í stað Benitez ef staða liðsins í ensku úrvalsdeildinni versnar enn.

Annar eigandinn, Tom Hicks, neitaði að tjá sig um Mourinho í enskum fjölmiðlum um helgina.

Mourinho mun hafa gefist upp á því að bíða eftir því að Frank Rijkaard yrði rekinn frá Barcelona og þá er ekki útlit fyrir að Real Madrid skipti út Bernd Schuster á næstunni.

Hann hefur einnig verið orðaður við AC Milan en Mourinho er sagður ekki vongóður um að fá það starf þar sem hann telji að félagið muni áfram ráða fyrrum leikmenn liðsins í starf knattspyrnustjóra.

Þá hefur Ottmar Hitzfeld, stjóri Bayern München, sagt að hann hætti í sumar og hefur Franz Beckenbauer, forseti félagsins, sagt að Mourinho gæti vissulega komið til greina.

Mourinho er þó sagður vera spenntari fyrir Englandi en Þýskalandi. Hann mun vera tilbúinn að ræða við eigendur Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×